Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 243/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 243/2023

Fimmtudaginn 17. ágúst 2023

A og

B

gegn

Kópavogsbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 16. maí 2023, kærðu A, og B, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Kópavogsbæjar, dags. 2. maí 2023, um að synja umsókn þeirra um fjárhagsaðstoð fyrir marsmánuð 2023.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur hafa þegið fjárhagsaðstoð frá Kópavogsbæ frá apríl 2022. Kærendur sóttu um áframhaldandi fjárhagsaðstoð fyrir marsmánuð 2023 en þeirri umsókn var synjað  með ákvörðun teymisfundar, dags. 31. mars 2023, á grundvelli 20. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð. Velferðarráð Kópavogsbæjar staðfesti þá ákvörðun á fundi 24. apríl 2023 sem var kynnt kærendum með bréfi velferðarsviðs, dags. 2. maí 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. maí 2023. Með bréfi, dags. 22. maí 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð sveitarfélagsins vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst 16. júní 2023 og var hún kynnt kærendum með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. júní 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kærenda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála greina kærendur frá því að þau séu einungis með skuldir og eigi enga bankainnistæðu. Þau þurfi að greiða leigu en það hafi þau ekki getað gert í þrjá mánuði.

III. Sjónarmið Kópavogsbæjar

Í greinargerð Kópavogsbæjar kemur fram að kærendur hafi sótt um fjárhagsaðstoð fyrir mars 2023 á grundvelli 15. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð. Umsókninni hafi verið synjað á grundvelli 20. gr. sömu reglna þar sem kærendur væru eigendur fyrirtækis og væru með opið virðisaukaskattsnúmer og því ekki kostur að veita fjárhagsaðstoð. Í 20. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð sé skýrt kveðið á um að atvinnurekandi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur eigi kost á fjárhagsaðstoð hafi hann hætt rekstri og lokað virðisaukaskattsnúmeri, auk þess að hafa leitað réttar síns til atvinnuleysisbóta í samræmi við ákvæði laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Umsókn kærenda hafi einnig náð til láns/styrks vegna sérstakra erfiðleika á grundvelli 28. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð til greiðslu húsaleigu fyrir apríl. Á fundi velferðarráðs Kópavogs hafi velferðaráð staðfest synjun teymisfundar vegna þess hluta umsóknar er lyti að fjárhagsaðstoð á grundvelli 15. gr., en hafi samþykkt að veita undanþágu til greiðslu láns vegna sérstakra erfiðleika samkvæmt 28. gr. til greiðslu húsaleigu fyrir einn mánuð. Umsókninni hafi því verið vísað aftur til afgreiðslu ráðgjafar- og íbúðadeildar.

Tekið er fram að kærendur séu hjón sem tali hvorki íslensku né ensku og séu þar að auki með sitthvort móðurmálið. Núverandi dvalarleyfi kærenda gildi til 3. október 2026. Kærendur hafi fyrst leitað til velferðarsviðs Kópavogsbæjar í apríl 2022 og þá hafi þau verið búin að fullnýta rétt sinn til greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Kærendur hafi glímt við óvinnufærni til lengri tíma vegna verkja í stoðkerfi. Kærendur hafi notið fjárhagsaðstoðar samfellt í 14 mánuði frá apríl 2022.

Kærendur hafi stofnað fyrirtækið, C, 1. mars 2023 í nafni annars kærenda og með hlutafé að upphæð 500.000 kr. Rætt hafi verið við kærendur í sitthvoru lagi og samkvæmt öðru þeirra hafi þau fengið lán hjá vinum en samkvæmt hinu hafi þau selt fjölskyldubílinn og tekið tvö bankalán. Kærendur hafi skilað staðfestingu af bankareikningum fyrirtækisins og engum eignum sé til að dreifa og enginn formlegur rekstur hafinn.

Kærendur hafi sótt um áframhaldandi fjárhagsaðstoð þann 20. maí 2023. Í símtali við kærendur ásamt túlki hafi þau greint frá því að staðan væri óbreytt. Þeim hafi legið hátt rómur og greint frá því að Alma leigufélag væri í útburðarferli vegna vangoldinnar húsaleigu. Engin innkoma væri til staðar hjá fyrirtæki þeirra að svo stöddu og þau væru að eigin sögn framfærslulaus og óttist að verða húsnæðislaus.

Samkvæmt 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga skuli sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er meti þörf og ákveði fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veiti þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilji veita. Í samræmi við þetta og 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga sé mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veiti. Í III. kafla reglna um fjárhagsaðstoð frá Kópavogi sé að finna ákvæði sem lúti að rétti til fjárhagsaðstoðar. Við mat á því hvort umsækjandi geti átt rétt til fjárhagsaðstoðar samkvæmt reglunum skuli meðal annars horft til 15. gr. reglnanna sem kveði á um hvernig skuli litið til tekna og eigna umsækjanda. Í 1. mgr. 17. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Kópavogsbæ segi að allar skattskyldar tekjur einstaklings og sambúðaraðila í þeim mánuði sem sótt sé um komi til frádráttar við ákvörðun um upphæð fjárhagsaðstoðar samkvæmt 15. gr. og einnig skattskyldar tekjur mánuðinn á undan ef heildar skattskyldar tekjur þann mánuð séu hærri en ein lágmarkslaun samkvæmt kjarasamningum. Þetta tekjuviðmið eigi ekki við þegar einstaklingur beri sannanlega ekki húsnæðiskostnað. Í þeim tilvikum komi allar skattskyldar tekjur í umsóknarmánuði og mánuðinum á undan til frádráttar framfærslukvarða umsækjanda við útreikning fjárhagsaðstoðar. Í 2. mgr. sömu greinar segi svo að með tekjum sé átt við allar innlendar og erlendar skattskyldar tekjur einstaklings og sambúðaraðila, svo sem atvinnutekjur, aðrar skattskyldar tekjur; greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, Sjúkratryggingum Íslands eða sjúkrasjóðum stéttarfélaga, greiðslur úr lífeyrissjóðum, atvinnuleysisbætur, leigutekjur, verktakagreiðslur, greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og mæðra- og feðralaun. Óumdeilt sé að kærendur hafi komist yfir 500.000 kr. sem þau hafi svo nýtt til þess að stofna fyrirtæki sitt en aftur á móti greini þau á um með hvaða hætti þau hafi komist yfir fjármagnið. Líta beri svo á að fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi sé neyðaraðstoð sem ekki beri að veita nema engar aðrar bjargir séu fyrir hendi.

Í 1. og 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Kópavogsbæ komi fram að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geti séð sér og sínum farborða án aðstoðar, sbr. IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991. Sú meginregla gildi að umsækjandi fái einungis greidda fjárhagsaðstoð ef hann geti ekki framfleytt sér sjálfur. Umrædd meginregla eigi sér stoð í a-lið 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð og 19. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, með síðari breytingum, sem kveði meðal annars á um skyldu hvers og eins að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára.

Í 20. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð sé skýrt kveðið á um að atvinnurekandi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur eigi kost á fjárhagsaðstoð hafi hann hætt rekstri og lokað virðisaukaskattsnúmeri, auk þess að hafa leitað réttar síns til atvinnuleysisbóta í samræmi við ákvæði laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Þá hafi úrskurðarnefnd velferðarmála áður byggt á því að jafnvel þótt umsækjandi um fjárhagsaðstoð hafi átt hlutafé í fyrirtæki sem ekki sé í rekstri sé eðlilegt að nota andvirði hlutafjáreignarinnar sem neyðarúrræði til framfærslu áður en fengin sé fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi nema sýnt hafi verið fram á að fyrirtækið hafi verið afskráð eða tekið til gjaldþrotaskipta, sbr. úrskurður nefndarinnar í máli nr. 69/2013. Í fyrirliggjandi máli liggi hvorki fyrir að C hafi verið afskráð né tekið til gjaldþrotaskipta. Þá liggi ekki fyrir að virðisaukaskattsnúmeri félagsins hafi verið lokað. Því sé þess krafist af hálfu Kópavogsbæjar að hinn kærði úrskurður standi óhaggaður.

IV.  Niðurstaða

Kærð er synjun Kópavogsbæjar frá 2. maí 2023 á umsókn kærenda um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir marsmánuð 2023. Umsókninni var synjað á þeirri forsendu að skilyrði 20. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð væri ekki uppfyllt.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Um leið skulu við framkvæmd félagsþjónustunnar sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr.

Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Sveitarfélög skuli tryggja að stuðningur við íbúa sem hafi barn á framfæri sé í samræmi við það sem sé barninu fyrir bestu. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til útfærslu á fjárhagsaðstoð til einstaklinga. Í samræmi við það og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur hverrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í III. kafla reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð er kveðið á um rétt til fjárhagsaðstoðar. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. á atvinnurekandi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur kost á fjárhagsaðstoð hafi hann hætt rekstri og lokað virðisaukaskattsnúmeri, auk þess að hafa leitað réttar síns til atvinnuleysisbóta í samræmi við ákvæði laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kærendum var synjað um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir marsmánuð 2023 á þeirri forsendu að þau væru með opinn rekstur og opið virðisaukaskattsnúmer. Af gögnum málsins er hins vegar ljóst að einungis annar kærenda er skráður raunverulegur eigandi þess fyrirtækis sem um ræðir. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála bar Kópavogsbæ að leggja sjálfstætt mat á aðstæður þeirra beggja hvað varðar framangreint skilyrði 1. mgr. 20. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð. Þar sem A var skráð raunverulegur eigandi félags sem var með opið virðisaukaskattsnúmer í mars 2023 uppfyllti hún ekki skilyrði 1. mgr. 20. gr. til greiðslu fjárhagsaðstoðar í þeim mánuði. Ákvörðun Kópavogsbæjar um að synja umsókn hennar um fjárhagsaðstoð er því staðfest. Það er hins vegar mat úrskurðarnefnarinnar að Kópavogsbæ beri að taka umsókn B um fjárhagsaðstoð fyrir marsmánuð 2023 fyrir að nýju vegna framangreinds annmarka á málsmeðferðinni. Ákvörðun Kópavogsbæjar um að synja umsókn hans um fjárhagsaðstoð er því felld úr gildi og þeim hluta málsins vísað til nýrrar meðferðar sveitarfélagsins.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Kópavogsbæjar, dags. 2. maí 2023, um að synja umsókn A, um fjárhagsaðstoð fyrir marsmánuð 2023, er staðfest. Ákvörðun Kópavogsbæjar, dags. 2. maí 2023, um að synja umsókn B, um fjárhagsaðstoð fyrir marsmánuð 2023, er felld úr gildi og þeim hluta málsins vísað til nýrrar meðferðar sveitarfélagsins.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum